laugardagur, 22. mars 2014

Sófaborð sem varð hliðarborð.....

.... við sjónvarpssófann er alveg ótrúlega góð hugmynd, þó ég segi sjálf frá ;)

Mér áskotnaðist ferhyrnt palesander sófaborð frá foreldrum mínum, þau höfðu ekki not fyrir það og ætluðu að láta það í GH en ég taldi mig geta notað það með smá breytingu.

Ég gleymdi auðvitað að taka mynd af því áður en maðurinn minn myndaði sögina. En það leit nokkurn veginn svona út, nema hliðarspýturnar eru alveg upp við borðplötuna og á alla kanta.


Við vorum alltaf að vandræðast með hornið við sjónvarpssófann, það var eiginlega bara hálfgerð ruslakista. Það svona já vantaði eitthvað þarna.


Lampinn var líka alls ekki að passa þarna, kom leiðindaglampi á sjónvarpið fyrir þá sem sitja hinum megin í sófanum. Svo bara vildi alltaf safnast drasl þarna.


Fartölvutaska, fartölvubakki, prjónadótið og myndavélin. 
Svo væri líka gott að geta lagt frá sér glas eða eitthvað svoleiðis.

Þannig að húsmóðirin lagði húsbóndanum það verkefni að taka borðið í tvennt (ég hjálpaði samt smá til sko), síðan settum við vinkla beint á vegginn í staðinn fyrir að festa borðin alveg við vegginn. Þá er hægt að taka þau frá þegar þarf að þrífa. Já svona erum við ótrúlega sniðug :)


Mér sýnist þetta ætli að vera nýji uppáhalds staðurinn hjá þessu krútti.


Borðið passar akkurat í þetta rými


Ja, Nói er allavega mjög sáttur með þessa breytingu :)

Næsta skref er svo að meðhöndla borðin einhvern veginn, pússa og lakka eða mála.... er ekki alveg búin að ákveða. Ætla að máta þetta aðeins svona, líka sjá til hvað við gerum í sambandi við sjónvarpshirslu, næst á dagskrá er að finna eitthvað skemmtilegra þar. Eins og er erum við með gamla Rúmfatalagers kommóðu sem ég var búin að gera upp, sjá hér. Hún er búin að nýtast vel þessi, minnir að ég hafi keypt hana um 1999. En skúffurnar eru orðnar lúnar og okkur langar bara að fá okkur eitthvað skemmtilegra.


Það eru sko næg verkefnin, þið kannski kannist við þetta :)

Knús út í daginn

Birna






Best Blogger Tips

sunnudagur, 9. mars 2014

Frosti Þór 3 ára....

...... var haldið tvöfalt þetta árið. Buðum fjölskyldunni á afmælisdeginum sjálfum, ástæðan var að við ætluðum að halda krakkaveisluna þann daginn en Nói litli var búinn að vera svo veikur að við ákváðum að fresta því um nokkra daga. Amma og afi á Bíldó komu, amma í sveitinni og Doddi og Silja.


Strákurinn var búinn að bíða lengi eftir Diego afmælinu sínu þannig að mamman skellti í eina þar sem krakka afmælið frestaðist um nokkra daga. Hann var mjög ánægður.


Go Diego Go !


Svo var ákveðið að kíla á afmælið á laugardaginn 8. mars.
Eins og sjá má þá var drengurinn mjööööög spenntur :)


Afmælisborðið uppdekkað, allir afmælisgestir með sinn stað við afmælisborðið. Það er algjör snilld að eiga svona sér afmælisborð, en eins og ég hef sagt frá áður er ég búin að nota það síðan 2009 þegar ég útbjó það fyrir 2 ára afmæli Ólivers míns. Getið séð gömlu færsluna hér.


Þennan borða keypti ég á ebay, ásamt pappadiskunum, glösunum og servíettunum.


Svo til að toppa frumskógarþemað þá hengdi ég ræmur af kreppappír í skógarlitum í loftið fyrir ofan borðið.


Fallegi afmælisdrengurinn minn kominn í fínu fötin. Hann er algjört afmælisbarn eins og ég :)


Tilbúinn að taka á móti gestunum.


Vinirnir mættir


Fékk flotta derhúfu frá Friðþjófi vini sínum, þá geta þeir verið alveg eins.


Svona leit afmæliskakan út í ár. Tréhúsið hans Diegos, fallegur foss með blómum í árbakkanum sem Frosti valdi sjálfur að hafa á. Fannst að það yrðu að vera blóm, hann er svo mikið yndi.


Þá er búið að kveikja á kertunum og blysinu sem vakti mikla lukku.


Allir krakkarnir fengu grímur sem ég fann á netinu og prentaði út. 
Afmælisbarnið var að sjálfsögðu Diego.


Litli bróðir var bjór


Friðþjófur var gíraffinn


Tara var ljónið.


Ótrúlega gaman að fá svona marga flotta kakka í heimsókn.

Frosti var alsæll með daginn og fékk mikið af fínum gjöfum.
Takk fyrir komuna allir saman og takk fyrir að skoða síðuna.

Knús
Birna

Best Blogger Tips

föstudagur, 7. mars 2014

Öskudagur 2014...

.... ég er ein af þeim sem ELSKAR þennan dag og já bara þessa búninga, búa til gervi.... finnst þetta svo skemmtilegt og gaman að búa til búningana sjálf. Ég er minna fyrir þessa tilbúnu búninga, það er gaman að hafa aðeins fyrir hlutunum, mér finnst það gera það meira virði fyrir mig. En það er bara ég :) Allavega fyrir öskudagsballið sjálft en hinsvegar eru notaðir tilbúnir búningar í skólann og leikskólann. 

Í fyrra fóru Óliver og Frosti sem Karíus og Baktus, Nói var Valli í "Hvar er Valli?" og mamman var indjánastelpa. Í leikskólann fóru sjóræningi og kúreki.




Í ár fór Bósi í leikskólann og Eldmaðurinn í grunnskólann



Á öskudagsballinu sjálfu urðu hér til Hulk hinn ógurlegi, hræðilegt Zombie og Múmía. Nói litli varð að vera eftir heima hjá pabba en hann var fárveikur greyið. Hann átti að vera garðálfur, ohh það hefði verið svo sætt.


Svona var Hulk hinn ógurlegi


Hann valdi sjálfur að vera Hulk og það var nú nokkuð einfaldur búningur. Við áttum til grænan bol sem var að verða of lítill, þannig að ég þrengdi hann bara aðeins svo hann yrði strekktur á Frosta og litaði svo útlínur af vöðvunum með túss. Buxurnar voru buxur sem átti að fleygja. Ég þrengdi þær líka, klippti og reif þannig að þær yrðu sjúskaðar. Síðan var bara smá græn málning á andlitið, svartur litur til að skerpa á og hárið spreyjað svart.


Síðan var "unglingurinn" zombie, sem er svona líka inn í dag.


Við leituðum af fötum í grímubúningakassanum og fundum þessar svörtu buxur sem ég varð bara að þrengja aðeins og svo voru þær klipptar til og gerðar sjúskaðar/rifnar. Bolurinn var gamall bolur af mér sem ég lagaði aðeins til, rifum til og minnkuðum.


Hann er góður leikari strákurinn, alveg í karakter.


Síðan var komið að gervinu, gerviskinnið er búið til úr skólalími og klósettpappír. Já þetta er alveg ótrúlegt hvað er hægt að gera. Við vorum að googla, ég og Óliver, til að finna búninga og rákumst þá á þetta. Ákváðum að slá til og þetta heppnaðist bara alveg ótrúlega vel.

Síðan var bara að mála drenginn, gera mar og fleiri sár. Síðan var notast við gerviblóð til að gera þetta ennþá meira raunverulegt. Hann skelfdi sko marga á þessu balli get ég sagt ykkur.

Jæja nú hef ég góðan tíma til að hugsa hvaða búninga skal hafa að ári. Ekki seinna vænna ;)

Knús 
Birna







Best Blogger Tips

fimmtudagur, 6. mars 2014

Kannski kominn tími....

..... á að halda áfram með þetta blessaða blogg. Seinasta færsla var gerð 19. desember... ég bara hálf skammast mín. En nú skal úr því bætt en fyrst að ég skildi seinast við í jólamánuðinum þá er best að loka þeim kafla og sýna ykkur jóla vinkonugjafirnar í ár. En ég byrjaði á því í fyrra að færa nokkrum góðum vinkonum smá jóla vinkonugjöf. Til að minna ykkur á þá voru gjafirnar árið 2012 svona:


Hægt að sjá heildarfærsluna hér. En þetta var nú mjög einfalt og ódýrt en það er alltaf gaman að gleðja aðra.

Í ár notaði ég líka bara það sem ég átti til, gamalt efni, borða og fyllingu innan úr púðum sem ég var hætt að nota, úr því urðu þessi sætu vinkonuhjörtu.




Með þessu fylgdi síðan súkkulaðiskeið til að búa til heitan súkkulaðidrykk, sykurpúðar og piparmyntubrjóstsykur. Súkkulaðiskeiðinni var einfaldlega hrært út í bolla af heitri mjólk og þá var komið heitt súkkulaði. Ekkert betra á köldu vetrarkvöldi en heitt súkkulaði.


Þannig var það nú. Svo var líka leynivinaleikur í þorpinu og eru það þá fjölskyldur sem taka þátt og koma hvort öðru á óvart með gjöfum. Langaði bara að sýna ykkur hvað við vorum með.


Byrjuðum á að færa þeim nýbakað bananabrauð, kerti og jólakakó fyrir fjölskylduna.


Næst var þessi krúttlegi jólasveinasleði sem færði þeim spil og nammi :)


Að lokum var sveitahryggur fyrir fjölskylduna sem vonandi kom sér vel.

Knús
Birna


Best Blogger Tips

fimmtudagur, 19. desember 2013

Jólagjöf frá...

.... mér til mín er komin í hús. Ég var ekkert að vesenast með að geyma gjöfina eitthvað heldur spændi upp pakkann í mikilli tilhlökkun og váááá.....  I´m in Love


Ég er búin að sjá svo marga flotta púða á hinum ýmsu síðum og er Dossa sérstaklega dugleg að sýna okkur margt fallegt. Maður fær alveg kaupsting við að sjá allt þetta fallega dót.

En svo var ég að vafra inná www.aliexpress.com um daginn í fyrsta skiptið því maður var að heyra annan hvern mann tala um þessa síðu og þá rakst ég á þessa dásemd.


Ég var sko ekki lengi að næla mér í þá. Mér finnst þeir svoooo fallegir.


Svo er bara spurning á ég að hafa þá hér í stofunni?


Eða í sjónvarpsholinu?


Hvað finnst ykkur? Hvar njóta þeir sín betur?


Svo var ég víst ein af fáum sem náði að næla sér í svona flottan bakka í RL.
Hann er bara æði og svo er skál í stíl, fínt fyrir smákökurnar með sjónvarpsglápinu á kvöldin.

En hvað segiði; í stofunni eða sjónvarpsholinu? Hvaða púði er uppáhalds? 
Persónulega er ég alltaf rosalega veik fyrir uglum en ég get heldur ekki staðist flott hreindýr.


Munið að skilja eftir ykkur spor, það er svo gaman að sjá hverjir eru að skoða.

Jólaknús 
Birna


Best Blogger Tips

miðvikudagur, 11. desember 2013

Veikindi á veikindi ofan...

.... þannig er nú bara staðan á mínu góða heimili. Elsti búinn og tók það fljótt af, miðjan nýbúin en litla greyið mitt ætlar ekki að ná sér. Það er komið á aðra viku núna sem hann er með þessa blessuðu magapest.


En broskallinn hættir samt ekkert að brosa. 

Mamman er hinsvegar að verða buguð af þreytu og vöðvabólgu, gott svona korter í jól. Ég sem ætlaði að gera svo margt en það koma jú jól fyrir því. Ég vona bara svo innilega að hann fari að hressast litli kallinn minn. Það er ekkert verra en að horfa uppá þau þegar þeim líður illa.

Við náðum nú samt sem áður að mála piparkökurnar og piparkökuhúsin seinustu helgi.


Elsti minn búinn að missa sínar fyrstu tennur, seinni var að detta úr í fyrradag :)


Þeir verða ekki mikið krúttlegri en þessi :)


Hér er afraksturinn okkar, allir strákarnir fengu að skreyta sitt piparkökuhús


Svo flott jólabörn

Annars er minn tími aðallega búinn að fara í veikindastúss en ég náði þó að pakka inn gjöfunum í gær og skrifa á nokkur jólakort. Síðan klippti ég líka út þessi sætu snjókorn í gluggana hjá okkur. 
Sá þetta hjá henni Stínu Sæm og þetta kemur svo vel út.


Eigið góðan dag

Knús
Birna
Best Blogger Tips