laugardagur, 31. desember 2011

Nú kveðjum við árið 2011


Ég settist niður við eldhúsborðið mitt í morgun með tebollann minn og fór að hugsa um árið sem er senn að ljúka. Þetta er búið að vera mjög viðburðaríkt ár fyrir litlu fjölskylduna mína. Hér mun ég renna yfir árið hjá okkur.

Við Ásgeir fögnuðum sambandsafmæli okkar þann 13. febrúar.


Á Þorrablóti á Bíldudal. Þarna er ég gengin um 37 vikur


Að sjálfsögðu stendur uppúr að við breyttumst úr lítilli fjölskyldu í Vísitölufjölskyldu :) þegar við Ásgeir eignuðumst annan son.Drengurinn fæddist 6. mars í miklu snjóveðri og byl. Við mættum upp á fæðingardeild kl:14 og hann var kominn í heiminn 17.32. 17 merkur og 54 cm,
stór og sterkur VestfjarðaVíkingur.Þann 1. maí var hann svo skírður á afmælisdegi pabba síns
og fékk hann nafnið Frosti Þór.Frosti Þór


* Byrjaði að velta sér 3 og hálfs mánaða
* Fyrstu tennurnar mættu 25. júlí, tvær í einu :)
* Sat einn og óstuddur 5 mánaða
* Byrjaði að skríða 6 mánaða
* Byrjaði að standa upp 7 mánaða
* Byrjaði að ganga með 8 mánaðaÓliver Logi tók stoltur við nýju hlutverki sem stóri bróðir á árinu. En hann varð 4 ára 11. júlí og að þessu sinni var Spiderman þema í garðpartýinu á Grænabakka (húsið okkar á Bíldudal).

Óliver Logi


* Keppti í frjálsum íþróttum í fyrsta skipti í sumar,
á Unglingamóti HHF og Héraðsmóti HHF
* Stækkaði um heila 8 cm á þessu ári
* Byrjaði í Íþróttaskóla Harðar í október
* Byrjaði á nýjum leikskóla, Arakletti í nóvember

Við hjónin unnum til verðlauna á Héraðsmóti HHF en við komum heim með 5 gull og 1 silfur.
Við fórum í okkar árlega ferðalag í Haukadal í Dýrafirði þar sem fjölskyldan á bústað. Þar fór Frosti í fyrsta skipti í sund og þótti mjög gaman.


Við tókum þá stóru ákvörðun á árinu að kaupa okkur hús saman og flytja yfir á Patró. Við urðum þinglýstir eigendur að Strandgötu 19 þann 17. ágúst. Við fluttum í húsið 28. október, við leigjum út húsið á Bíldudal á meðan en það er einnig á söluskrá.


Þann 1. október voru réttir á Múla í sveitinni okkar og það er alltaf jafn skemmtilegt. Margir voru mættir í sveitina til að hjálpa til.


Í haust byrjaði ég með þyngdaráskoranir sem kallast 6 í shape og er á vegum Herbalife. Fyrsta námskeiðið var haldið á Bíldudal í ágúst og þar tóku 10 konur þátt. Alls losuðu við okkur við 21. kg og 139 cm. Seinna námskeiðið var haldið á Patró og þar tóku 11 konur þátt. Á því námskeiði losuðum við okkur við 30,3 kg og 136 cm. Persónulega tók ég af mér 8,8 kg og 44,5 cm á báðum námskeiðum samanlagt.
Kærkomin kveðja fyrir þau kíló eftir barnsburðinn.


Í ágúst fór ég í afleysingastarf í umsjónarkennslu við Grunnskólann á Bíldudal. Þar var ég að kenna krökkum í 1.-4. bekk. Ég var að kenna fram í miðjan nóvember. Þá tók við að koma húsinu í þokkalegt stand fyrir Jólahátíðina. Það gekk að mestu eftir sem hægt var og voru jólin alveg yndisleg. Á aðfangadag vorum við 4 saman í Króknum og áttum yndislega fjölskyldustund. Á jóladag fórum við til foreldra minna á Bíldudal og á 2. í jólum fórum við til tengdó í sveitina.
Núna einbeitir fjölskyldan sér að því að koma sér vel fyrir í nýja húsinu sínu og stefnan er sett á að byrja endurbætur í janúar á nýja árinu.

Við viljum nota tækifærið og þakka öllum sem hafa hjálpað okkur á árinu. Takk fyrir að allar gjafir sem hafa borist vegna fæðingu og skírnar Frosta Þórs. Takk fyrir þær heimsóknir sem við höfum fengið og þá velvild sem við fundum fyrir þegar við fluttum í Krókinn. En fyrst og fremst takk kæru vinir og fjölskylda fyrir að vera til. Án ykkar væri lífið tómlegra. Sjáumst sem fyrst á nýju ári.

Bestu nýárskveðjur til ykkar allra.
Fjölskyldan í Króknum


Best Blogger Tips

Engin ummæli:

Skrifa ummæli